Bjólfssalir – útsýnisstaður

Samkeppistillaga um útsýnisstað við Bjólf við Seyðisfjörð
Höfundar: Tendra, Ingibjörg Jara Sigurðardóttir og Storð Landslagsarkitektar, 2021


Útsýnisstaðirnir hátt uppi í hlíðum Bjólfs bjóða upp á stórbrotna sýn yfir fjallasali, út Seyðisfjörðinn, niður á Seyðisfjarðarkaupstað og inn eftir dalnum.

Heiti tillögunnar Bjólfssalir vísa til fjallsins sjálfs og fjallasala þess, landnámsmannsins Bjólfs og sagna um að hann hafi átt bústað sinn undir fjallinu en sé heygður í því (sbr. örnefnið Haugur) og njóti því þar útsýnisins til eilífðar. Þannig fá gestir notið útsýnisins með honum þá stuttu stund sem þeir eru á fjallinu. Í yfirfærðri merkingu vísar nafnið þá einnig til kvikmyndasala, þar sem bíómynd kvöldsins er stórfenglegt útsýnið inn og út yfir Seyðisfjörðinn. Jarðlagaraðirnar í fjöllunum mynda náttúrulega áhorfendapalla og þá endurtökum við í smækkaðri mynd á á útsýnisstöðum.

Tillagan miðar að því að auðkenna, styrkja og bæta þá þrjá útsýnisstaði sem fyrir eru og umhverfi þeirra. Útsýnisstaðirnir verða nefndir Salur 1, Salur 2 og Salur 3. Áhersla verður lögð á Sal 1 í umfangi mannvirkjagerðar.