Hjúkrunarheimili á Húsavík
Samkeppnistillaga um nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík 2020
Markmið tillögunnar var að skapa bjart, gott og fallegt heimili þar sem íbúar og starfsfólk gætu verið í nánum tengslum við náttúruna. Jafnframt var lagt upp úr því að hanna vel tengdan vinnustað með stuttum „boðleiðum“ fyrir starfsfólk.
Byggingin á sér tvær hliðar. Önnur hliðin snýr að núverandi sjúkrahúsi, er bein og í takt við mælikvarða bygginganna í kring. Þaðan er útsýni yfir bæinn og fjöllin. Hin hliðin stallast upp og faðmar hlíðina og hleypir henni inn í bygginguna.
Hjúkrunarrými og stofur eru öll með útsýni yfir bæinn og hið stóra landslagsrými en gangar og minni setustofur snúa upp að inngörðum og skógræktinni í hlíðinni.
Við úrlausn tillögunnar var leitast við að tryggja íbúðaeiningunum góða og friðsæla staðsetningu í byggingunni við ganga sem liggja út frá hjarta hússins og hafa mikil rýmisleg gæði.
Byggingunni er skipt upp í tvær álmur sem mætast í miðrýminu sem er hjarta hússins og tengir hæðirnar lóðrétt og lárétt. Í miðrýminu eru stofur og eldhús eininganna, tröppu- og lyftukjarni, starfsmannarými, og stoðrými deildanna.








