Skipulag í Gufunesi

Hugmyndaleit um skipulag í Gufunesi
Ný byggð við sjávarsíðuna

Höfundar; Tendra, Mad, Mud og Nomad
Samkeppnistillaga 2021

Leiðarstef tillögunnar var að styrkja þau gæði sem fyrir eru og flétta þau inn í byggðina; strandsvæðið og gamlar byggingar. Með því að framlengja strandsvæðið og tilheyrandi gæði upp á milli húsanna gæfi það íbúum tilfinningu um að þeir búi við ströndina, jafnvel þó þeir séu ekki næst sjónum.

Það eru líka mikil gæði og sjarmi fólgin í þeim mannvirkjum sem fyrir eru. Gamalt iðnaðarhúsnæði sem er í umbreytingaferli fyrir skapandi greinar og gamlar bryggjur. Þar sáum við tækifæri til að búa til anda sem minnir á gæði gamalla miðborga og rómantískra sjávarplássa.

Stóra mynd skipulagstillögunnar var að þróa svæðið sem tvö svæði ( svæði A og svæði C ) sem hefði hvort sín einkenni enda kalla þau á ólíkar lausnir vegna legu sinnar.

Á svæði A er randbyggð meðfram götum sem losnar svo um í átt að ströndinni. Það opnar á útsýni, skapar skjól og hleypir náttúrunni inn á milli bygginganna. Á svæði C eru aftur á móti punkthús sem halda hinni mjóu ræmu á milli fjöru og Reykjavíkur sem opnu svæði í stað þess að hólfa það í fleiri mjórri ræmur.

Þar sem svæðin tvö og GN Studios mætast var lagt til að hafa sameiginlegt torg sem tengir svæðin saman. Við torgið er lítil bryggja eða útsýnisstaður sem hvort tveggja þjónar tilgangi áningarstaðar (ofan á) og gufubaðs undir. Þar er stundum vindur en alltaf útsýni og sterk tenging við hafið. Ströndin og sandhólarnir fá að teygja sig upp á milli húsanna og hafa áhrif á inngarða. Á milli grasi- og melgresisvaxinna sandhóla eru leik- og útisvæði fyrir íbúa og vegfarendur.