Súgandisey – Perla við Stykkishólm

Samkeppnistillaga um aðgengi ferðamanna og útsýnisstað á Súgandisey
Höfundar: Tendra og Mad arkitektar, 2020

Súgandisey er náttúrperla við Stykkishólm sem gerir tengingu bæjarins við Breiðafjörð enn sterkari. Frá eynni er mikilfenglegt útsýni yfir Breiðafjörðinn sem margir sækja eftir. En eyjan hefur einnig sitt eigið aðdráttarafl. Hver hluti eyjunnar býður upp á mismunandi áherslur og upplifanir. Er gönguferð um eyjuna því eins og keðja upplifunar þar sem sjónum er ýmist beint að því sem stendur nær eða fjær. Samhliða því að leysa afmarkað verkefni á austurströnd Súgandiseyjar höfum við valið að koma með heildræna framtíðarsýn varðandi það hvernig styrkja mætti heildarupplifun eyjunnar í síðari áföngum. Eyjan er
röð upplifunar í tíma og rúmi og er leiðin á milli mismunandi staða jafn mikilvæg og staðirnir sjálfir. Núverandi göngustígur er áfram hálsfestin enda liggur hann vel í landinu en nýjar perlur verða þræddar upp á hann. Áfram verður notast við núverandi stíga og troðninga en þeir mögulega uppfærðir en nær engir nýir stígar verða lagðir. Okkar markmið er að styrkja upplifun hvers staðar og þau gæði sem eru þar eru. Útsýnið er nægilega sterkt eitt og sér en við bætum við vídd sem er ætlað að draga fram gæði sem við fyrstu sýn eru ekki augljósir.