SÓLEYJARIMI

Verkheiti:Skipulagssamkeppni
Staðsetning:Sóleyjarimi
Stærð:12.800 m2
Fjöldi íbúða:89 stk.
Verkkaupi:Reykjavíkurborg

Samkeppni á vegum Reykjavíkurborgar um nýjan hverfishluta við Sóleyjarima í Grafarvogi. Hverfishlutinn samanstendur af tveimur þyrpingum húsa sem tengjast eða yfirlappa hvor aðra og búa til nokkurs konar þorp með fjölbreyttum og skjólgóðum garðrýmum á milli húsanna þar sem mannlíf getur þrifist og nágrannar hittast. Hinn nýi hverfishluti, hér nefnt Sóleyjatún, er staðsettur austan megin á skipulags-svæðinu, næst Sóleyjarima. Þannig er skilið eftir grænt svæði vestast og syðst á svæðinu sem hægt verður að móta sem almenningsgarð. Svæðið verður skjólbetra og öðlast tilgang með tjörn, sleðabrekku, leikvelli, frisbeegolfi og bekkjum. Upplifunin er að maður búi í þorpi í almenningsgarði. Almenningsgarðurinn myndar einnig andrými á milli núverandi byggðar og hins nýja hverfishluta. Þetta þýðir t.d. að skuggavarp nýbygginga hefur óveruleg áhrif á núverandi byggð.

Myndun samfélags á sér stað í ýmsum mengjum. Innan húss, innan hverfiseiningar og innan hverfis. Markmið hverfismiðju Sóleyjatúns er að búa til vettvang þar sem íbúar hins nýja hverfis mætast með óformlegum hætti. Hverfismiðjan er staðsett miðsvæðis á svæðinu og er í beinum tengslum við aðalaðkomu, djúpgáma og hverfishús. Í hverfishúsinu mætti sjá fyrir sér aðalstigahús bílastæðakjallara, sameiginlegt garðhús úr gleri (sem er sameign íbúa) og rými fyrir hringrásarendurvinnslu íbúa.